news

Dagur leikskólans í dag 6.febrúar

06. 02. 2020

Dagur leikskólans 6.febrúar 2020

Dagur leikskólans er haldin 6.febrúar ár hvert. Leikskólinn er skilgreindur sem fyrsta skólastigið af fjórum, þ.e. leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli og háskóli. Leikskóli er menntastofnun og þar er lagður mikilvægur grunnur að framtíð barna okkar.

Á leikskólanum vinnum við mikið með málið, tölum við börnin, lesum fyrir þau, vinnum með málið í samverustundum, málörvunarstundum, í sérkennslustundum og í öllu daglegu starfi. Að setja orð á gjörðir okkar, að tala við börnin þegar við aðstoðum þau við að klæða sig í útiföt, við matarborðið o.s.frv. Á leikskólanum eru börn og starfsfólk með annað tungumál en íslensku og við gerum okkar besta til að vinna með það. Það eru t.d. samverustundir á móðurmálinu fyrir þá sem hafa annað móðurmál en íslensku og þegar að litlu börnin byrja á leikskólanum og þau skilja ekki íslensku og eru ekki vön íslensku mál umhverfi þá grípa þeir sem starfsmenn sem það geta til þess ráðs að tala við þau á þeirra tungumáli.Við getum ekki talað öll tungumál en í okkar samfélagi er pólskan algengust og við erum svo heppin að hafa fjölbreyttan starfsmannahóp á leikskólanum þar sem töluð er bæði íslenska og pólska. Við vinnum einnig með hreyfingu. Einu sinni í viku er farið í hreyfistundir, 2 árgangar fara í samkomuhúsið og elsti árgangurinn fer í íþróttahúsið. Elsti árgangurinn fer einnig í útikennslu einu sinni í viku, þar sem farið er um nágrenni okkar og það skoðað. Um daginn fengum við Eyþór á litlu gröfunni til að moka í stóran snjóskafl og búa þannig til lítið snjóhús. Inni í snjóhúsinu sat svo hópurinn saman og spjallaði og sagði sögur, þannig að okkur dettur margt skemmtilegt í hug. Hjá yngstu börnunum er mikil áhersla á öryggi. Að yngstu nemendur okkar og foreldrar upplifi leikaskólann sem öruggan stað sem gaman og gott er að vera á. Einnig erum við dugleg að mála, teikna, lita, klippa, perla og vinna á ólíkan hátt með fínhreyfingar okkar og þjálfa þær. Við gerum allt þetta og meira til.

Við erum að undirbúa okkur fyrir að vera heilsueflandi leikskóli með því að skoða starf okkar og meta, en það gerum við með því að svara sérstökum spurningarlistum. Við munum svo hefja vinnu næsta haust. Þetta er verkefni sem er í stöðugri vinnu og líkur í raun aldrei. Áhersluþættir heilsueflandi leikskóla eru 8: hreyfing, matarræði, geðrækt, tannheilsa, öryggi, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk. Þessir þættir eða vinna tengist svo aftur einum af grunnþáttum menntunar samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla sem er heilsa og velferð.

Við erum höfum einnig verið að lesa okkur til um og kynna okkur Uppeldi til ábyrgðar. En sú stefna hefur það markmið að ýta undir sjálfstjórn og ábyrgðarkennd barna og unglinga. Hún þjálfar börn og unglinga í að átta sig á þörfum sínum og fá þau til að tjá tilfinningar sínar, en jafnframt að setja sig í spor annarra. Hún kennir þeim sjálfsstjórn og sjálfsaga og gerir þeim kleift að læra af mistökum sínum. Þessi aðferð styður einnig við starfsfólk í starfi sínu og hjálpar þeim að móta ákveðna stefnu í samskipta og agamálum. Kenningin gengur út frá því að við höfum öll 5 þarfir sem við leitumst við að uppfylla í daglegu lífi okkar. Samkvæmt Diane Gossen (sem er höfundur stefnunnar) þá þjónar öll okkar hegðun einhverjum tilgangi, að það sé alltaf einhver ástæða fyrir því sem við gerum, hvernig við hugsum og hvaða tilfinningar vakna hjá okkur. Tilgangurinn er að sinna þessum ákveðnu þörfum, að uppfylla þær. Þessari þarfir eru, ÖRYGGI en það er grunnþörfin okkar. Að hafa þak yfir höfuðið, fá mat, fá aðstoð, allt sem við getum tengt við öryggistilfinninguna. Við höfum einnig þörf fyrir ÁST OG UMHYGGJU – að tilheyra öðrum, að elska, að þykja vænt um og að finna fyrir og upplifa vináttu. EIGIÐ ÁHRIFAVALD er ein þörfin, við höfum þörf fyrir að fá viðurkenningu, öðlast færni og hæfni. Við höfum þörf fyrir FRELSI, að finnast við hafa valmöguleika, upplifa sjálfstæði og sjálfsstjórn og að lokum höfum við þörf fyrir að upplifa GLEÐI OG ÁNÆGJU, að hlæja, hafa gaman, læra af hvort öðru og með öðrum, að skapa og vera skapandi. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því í samskiptum okkar að orðin sjálf eru 10% af skilaboðunum, 35% er tónninn í röddinni og 55% eru svipbrigði og líkamstjáning. Þetta er ekki endilega spurning um hvaða orð við notum heldur hvernig við segjum þau og tjáum með líkamsbeitingu okkar.

Leikskólinn er öflug og mikilvæg menntastofnun. Hjá okkur eru starfsmenn í námi, bæði í leikskólakennaranámi og einnig í uppeldis – og menntunarfræðum. Að byggja upp stöðugan og styrkan starfsmannahóp með góða fagmenntun er eitt af verkefnum okkar í dag. Við viljum hafa sem flesta kennaramenntaða því að fagmenntun er ekki síður mikilvæg fyrir yngstu nemendur okkar eins og eldri. Við eigum að hafa fagmenntaða kennara á öllum þeim skólastigum sem starfa í Grundarfirði – það tryggir faglegt og gott skólastarf.

Kveðja Anna Rafnsdóttir

© 2016 - 2020 Karellen