Karellen

Saga skólans Leikskólans Sólvalla

LEIKVÖLLUR: Áður en leikskóli var settur á stofn í Grundarfirði var rekin gæsluvöllur fyrir börn undir skólaaldri. Það voru kvenfélagið „Gleym mér ei” og Eyrarsveit sem ráku völlinn á sumrin á árunum 1966-1979. Leikvöllurinn var byggður árið 1963 og var á opna svæðinu á milli Grundargötu, Hlíðarvegs og Borgarbrautar í Grafarnesi (nú oftast nefnt Þríhyrningur).

LEIKSKÓLI: Síðan var það árið 1974 að nokkrar konur í Grundarfirði komu saman og ákváðu að kanna viðhorf sveitarfélagsins og vinnuveitenda til leikskólareksturs, sem þær og gerðu. Ekki var mikill áhugi fyrir hendi hjá forystumönnum sveitarfélagsins eða atvinnurekendum og meðal annars sagði einn þeirra „elskurnar mínar hjá mér eru allar konur komnar úr barneign” og fór málið ekki lengra í bili.

LEIKSKÓLINN Í GRUNNSKÓLANUM: Það næsta sem gerðist var að Rauða krossdeildin í Grundarfirði réðst í verkefnið „Leikskóli” árið 1976. Fyrst var gerð könnun hjá foreldrum. Sýndi hún að það voru foreldrar 65 barna sem höfðu áhuga og gátu hugsað sér að nýta þjónustu leikskóla. Þá var farið að kanna það húsnæði sem hægt var að fá og þótti ónotaður stór gangur í Grunnskólanum hentugastur og var ákveðið að hefjast þar handa við lagfæringar. Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossdeildarinnar hreinsuðu og máluðu húsnæðið. Starfshópur á vegum deildarinnar bjó til leikföng og fleira, Rauði krossinn gaf leikföng, húsgögn og fleira, Kvenfélagið gaf borð og stóla. Leikskólinn var svo opnaður 4. janúar 1977 og var þá ein deild fyrir hádegi og önnur eftir hádegi með 20 dvalarrýmum hvor. Fyrstu árin var deildin fyrir hádegi ekki fullnýtt en á deildinni eftir hádegi varð fljótt til biðlisti. Í maí árið 1979 kom upp eldur í Grunnskólanum og skemmdist þá mikið af eigum leikskólans og var starfsemi hætt þar enda var þá hafin bygging leikskóla við Sólvelli.

LEIKSKÓLINN SÓLVÖLLUM 1: Það var árið 1976 að ákveðið var að byggja leikskóla á Sólvöllum 1 og voru það Rauða krossdeildin og sveitarfélagið sem stóðu að byggingunni. Valin var bygging frá Einingarhúsum á Siglufirði, sem reistu húsið. Í húsinu var ein deild 42 börn (21 barn í einu), starfsmannaaðstaða (skrifstofa, kaffistofa, salerni og geymsla). Framlag Rauða krossdeildarinnar fólst að mestu í sjálfboðavinnu sem félagar inntu af hendi (málningarvinna og annað). Þann 15 nóvember árið 1979 var Leikskólinn Sólvellir svo formlega opnaður. Ýmiss félagasamtök og einstaklingar hafa styrkt leikskólann með gjöfum í gegnum tíðina.

ÚTIDEILD: Í janúar - júní 1990 var rekin Útideild við leikskólann og var hún staðsett á loftinu í Samkomuhúsinu og voru þar 10 börn og tveir starfsmenn. Útileikvöllur var nýttur með leikskólanum. Árið 1990 var komin af stað umræða um nauðsyn þess að stækka leikskólann og hófst bygging stækkunar 1991 og var hún tekin í notkun í mars 1992 en vígð á 17 júní. Ráðgjafi sveitarstjórnar við stækkunina og Útideildina var Selma Dóra Þorsteinsdóttir þáverandi formaður Fóstrufélags Íslands. En starfsfólk leikskólans ásamt leikskólastarfsfólki í Ólafsvík og Hellissandi hafði sótt námskeið í leikskólauppeldi hjá henni og Sesselju Hauksdótturá árunum 1988-89. Frá september 1992 hefur verið boðið upp á sveigjanlegan dvalartíma í leikskólanum og mat í hádeginu

Árið 1999 var orðið ljóst að Leikskólinn væri of lítill vegna fjölgunar barna í Grundarfirði og eins vegna aukins dvalartíma hjá hverju barni, starfsmannaaðstaða var léleg og eldhúsaðstaða þröng. Leikskólastjórar gerðu þarfagreiningu á stækkun leikskóla og komu með tillögur að viðbyggingu eða nýjum leikskóla. Ákvörðun bæjarstjórnar í nóvember 2000 var sú að byggja við leikskólann þar sem það væri aðkallandi þörf á því og nýbygging tæki lengri tíma. Með viðbyggingu var ákveðið að bæta starfsmannaðstöðu, eldhús og fataherbergi. Einnig var gert ráð fyrir fjölgun nemenda.

Í samstarfssamningi meirihluta í bæjarstjórn eftir kosningar var ákveðið að halda sig við það að byggja við leikskólann eigi síðar en 2004. Var valið í byggingarnefnd. Tveir fulltrúar úr meirihluta og einn fulltrúi úr minnihluta voru í nefndinni ásamt byggingarfulltrúa og leikskólastjórum. Hóf sú nefnd strax störf þá um haustið og var grunnhugmynd að viðbyggingu upp á 132 m2 tilbúin 2003. Vegna verkefnastöðu í sveitarfélaginu var ákvörðun tekin í desember 2003 að fresta útboði á viðbyggingu til ársins 2005. Þar sem Fjölbrautaskóli Snæfellinga var byggður og leit út fyrir fjölgun í byggðalaginu var ákveðið að bæta við þannig að viðbyggingin yrði 171,6 m2 til að koma til móts við ef fjölgun yrði í bænum. Viðbyggingin var boðin út í júní 2005 og var leikskólinn þá orðinn 446 m2

STJÓRNENDUR: Þegar leikskóli var stofnaður í Grundarfirði skiptu tvær fóstrur Guðbjörg Guðmundsdóttir og Hjördís Vilhjálmsdóttirmeð sér forstöðumanna-stöðunni fyrstu árin, ýmist önnur eða báðar til ársins 1985. Þá fékkst ekki fóstra við skólann og var Matthildur S. Guðmundsdóttir fengin til að vera forstöðumaður. Svo var það í júní 1993 að tvær nýútskrifaðar fóstrur (síðar leikskólakennarar) réðu sig við skólann þær Rebekka Jónsdóttir sem var hér í eitt ár og Sigríður Herdís Pálsdóttir sem starfaði sem leikskólastjóri til júní 2008. Eydís Lúðvíksdóttir þroskaþjálfi tók við af Rebekku í 50%stöðu og leysti Sigríði af í fæðingarorlofi 1994 -1996. Matthildur leysti Sigríði af í 50% stöðu 2002-2004 þegar hún fór í framhaldsnám í stjórnun menntastofnana og tók við stöðunni af henni 2008 og var til 2015. Þá tók Björg Karlsdóttir að sér leikskólastjórastöðuna en hún lét af störfum í ágúst 2017 og Anna Rafnsdóttir tók við sem starfandi leikskólastjóri.

© 2016 - 2023 Karellen